Miðstöðin

Miðstöðin hefur frá upphafi verið fjölskyldufyrirtæki en núverandi eigendur þess eru hjónin Marinó Sigursteinsson og Marý Kolbeinsdóttir.

Sigurvin Marinó Jónsson, pípulagningameistari, afi Marinós sem nú rekur Miðstöðina, stofnaði fyrirtækið árið 1940 en rak það undir sínu nafni allt til 1950 þegar það fékk nafnið Miðstöðin.

Sigurvin Marinó hafði ekki hafði ekki full réttindi til starfsins en settist á skólabekk í Iðnskólanum í Vestmannaeyjum, 47 ára að aldri, ásamt Sigursteini syni sínum og luku báðir prófi þaðan.
Fyrstu árin var fyrirtækið til húsa að Faxastíg 25 og auk þess að þar var verkstæði fyrir pípulagnir, kom Marinó þar einnig upp baðhúsi með fjórum sturtum. Var sú þjónusta mikið notuð, ekki síst af vertíðarfólki.

Árið 1959 flutti fyrirtækið yfir götuna að Faxastíg26 í 100fermetra nýtt húsnæði. Þá var einnig aukið við vöruúrval og tekið að versla með hreinlætistæki og flísar. Þeir Sigurvin Marinó, Sigursteinn og eiginkona hans, Sigfríður, ráku fyrirtækið saman en Sigurvin Marinó lést árið 1962. Marinó, sonur Sigursteins hóf snemma að starfa hjá fyrirtækinu en hann útskrifaðist sem pípulagningamaður 1974.
Marinó og Marý kona hans tóku við rekstrinum 1991

Árið 1996 gjörbreyttist öll aðstaða þegar þau Marinó og Marý festu kaup á neðstu hæðinni í húsinu Vosbúð við Strandveg. Þar rak Helgi Benediktsson áður verslun en um nokkurn tíma hafði Olíufélagið Skeljungur verið þar til húsa. Þröngt hafði orðið um starfsemina á Faxastígnum og var mikill munur að komast í 350 fermetra húsnæði í hjarta miðbæjarins. Það var síðan þann 20.05 2005 sem Miðstöðin flutti í enn betra og stærra húsnæði að Strandvegi 30 þar sem hurðaverksmiðjan Ímex var áður til húsa. Nú er verslunin sjálf orðin 350 fermetra og lagerinn 850 fermetrar auk 800 fermetra geymslupláss á annarri hæð.
Umsvif Miðstöðvarinnar hafa aukist mikið í kjölfar þessara flutninga. Í dag sér Miðstöðin um nær 70% af öllum pípulögnum í Vestmannaeyjum. auk þess að vera leiðandi í sölu á flísum og hreinlætistækjum.

Miðstöðin er umboðsaðili á flísum fyrir Álfaborg hf. í Reykjavík og til marks um stöðuna á þeim markaði er um þriðji hluti af allri sölu Álfaborgar á landsbyggðinni í Vestmannaeyjum. Miðstöðin hefur hefur umboð fyrir Málningu hf. í Kópavogi þegar þáverandi umboðsmenn í eyjum þeir Gísli og Ragnar hættu störfum. Hefur sala á málningu og málningarvörum verið ört vaxandi þáttur í starfsemi fyrirtækisins.
Í dag eru starfsmenn Miðstöðvarinnar tíu talsins, þar af fjórir pípulagningamenn.

Marinó Sigursteinsson er þriðji ættliðurinn sem starfar við fyrirtækið og nú hefur fjórðu ættliðurinn, sonurinn Bjarni Ólafur, útskrifist sem pípulagningamaður og mun örugglega haldi merki fjölskyldunnar á lofti í framtíðinni.